Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[16:45]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Áhugaverð umræða. Jú, ráðherrann er með lausnina. Fyrir tveimur, þremur árum hefði hv. þingmaður ekki verið að ræða þetta við mig vegna þess að þá voru vextir svo lágir og verðbólga lág. Við þurfum að slá niður verðbólguna. Þess vegna er fjármálaáætlunin því marki brennd sem hún er núna; annars vegar auknar tekjur og hins vegar aukið aðhald til að styðja við stefnu Seðlabankans og peningastefnu hans um að ná niður verðbólgu. Ég held að það sé langsamlega mikilvægasta markmiðið með fjármálaáætlun í dag.

Það er ekki alveg rétt hjá hv. þingmanni að vísa til þess að við séum ekki búin að ná að mæta vísitöluhækkun húsnæðisbótanna á leigumarkaði. Við náðum því um áramótin. Það var vissulega leiðrétting aftur í tímann. Síðan eru liðnir tæplega fjórir mánuðir og við erum ekki búin að gera neitt í því, ég er sammála þingmanninum í því. En við náðum því þarna, um áramótin vorum við búin að leiðrétta það sirka í kringum það þannig að það sé alveg skýrt, enda var það markmiðið að reikna það upp með þeim hætti.

Það er eitt við þessa blessuðu vísitölu á húsnæðismarkaði, auðvitað er algengast þar sem leigumarkaður er miklu stærri hluti af húsnæðismarkaðnum í öðrum löndum að þá sé það einmitt kostnaður leigjenda sem fari inn í vísitöluna. Hér hefur það verið kaupverð og það hefur verið gagnrýnt, og það er af því að leigumarkaðurinn er miklu minni hluti sem Hagstofan hefur farið hina leiðina til að meta þetta. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að hún sé rangt reiknuð, að það sé verið að reikna hana frá mánuði til mánaðar og ekkert bil í henni, það er ekkert svigrúm til sjá hvort hækkunin er svona og svo lækkar hún þannig að það sé lengri tími. Það er bæði gert í Kanada og Svíþjóð ef ég þekki það rétt. Ég er búinn að vera að vonast til að Hagstofan taki það upp og leiðrétti þessar reiknireglur. Það hjálpar okkur í að minnka sveiflurnar. (Forseti hringir.) Þegar topparnir verða þá koma þeir aðeins hægar og þá ýta þeir ekki eins mikið undir vísitöluhækkunina og þá víxlverkunina sem hv. þingmaður var að tala um, (Forseti hringir.) en fyrst og fremst slá niður verðbólguna og kannski myndi þetta hjálpa okkur líka.