Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[17:21]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Herra forseti. Ég þakka nú hv. þingmanni fyrir þessar vangaveltur sem veita mér tækifæri til að svara út frá því hvað mér finnst en ekki sem staðgengill ráðherra og tek undir með hv. þingmanni að það er verulegt áhyggjuefni sem við höfum verið að sjá og greina á síðustu árum og það fer vaxandi; ungmenni sem upplifa kvíða, forstig þunglyndis, jafnvel þunglyndi, og áhyggjur af andlegri heilsu sinni. Þau upplifa ákveðna fötlun í námi, hvort sem er í háskóla eða framhaldsskóla, sem oftast er af andlegum toga. Maður veltir fyrir sér í samfélagi sem er að blómstra með svo mikla velmegun og við erum með kannski tækifæri fyrir unga fólkið sem aldrei fyrr, af hverju þetta er.

Ég vil bara taka undir með hv. þingmanni að við þurfum að velta vöngum yfir þessu. Er það eitthvað í kerfunum okkar sem hefur gert það að verkum? Er það eitthvað í samfélaginu okkar sem hefur gert það að verkum? Sjálfur hef ég þorað að segja það upphátt að ég held að velmegunin sé að koma í kollinn á okkur og við gleymum svolítið því að taka þátt í hinu venjulega samfélagi, að tala saman, hvort sem er innan fjölskyldna eða vinahópa. Er það vegna þess að áreitið er of mikið á samfélagsmiðlum eða í skólakerfinu? Ég veit það ekki.

En varðandi svo fjármálaáætlun og skólann, svo ég svari einhverju fyrir hönd míns ágæta kollega, ráðherra, þá nær auðvitað námskráin yfir þetta líka. Skólarnir hafa hins vegar mikið sjálfstæði um hvernig þeir takast á við þetta og farsældarlögin, sem er þessi nýja hugsun, miða m.a. að þessu og skylda í raun og veru alla til að grípa fyrr inn í en verið hefur. Ég held að það séu ákveðin tækifæri og það sem er gott í tengslum við fjármálaáætlunarumræðu er að þau eru þá fjármögnuð.