Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[17:28]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina og þótt hann sé staðgengill þá getur maður ekki látið hjá líða að koma hér upp og nota tækifærið og ræða menntamál. Eins og ég hef oft sagt þá held ég að við ræðum þau allt of sjaldan og kannski sérstaklega þá málaflokka sem heyra ekki beint undir okkur hjá ríkinu. Þá er ég að vísa í leikskólann og grunnskólann. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann sé að einhverju leyti sammála mér í því að við yfirfærsluna þegar grunnskólinn var færður yfir til sveitarfélaganna þá höfum við hér á löggjafarsamkundunni kannski svolítið sleppt höndunum af þessum ofboðslega mikilvæga málaflokki. Nú er ég algerlega sannfærð um að í grunnskólum landsins er alveg troðfullt af frábærum krökkum þannig að þegar við erum að tala um einhver vandamál eða áskoranir þá hefur það ekkert með börn að gera því að þau eru öllsömul frábær. Ég efast ekki heldur um það að við séum með mikið af flottum kennurum til starfa. Það er engu að síður þannig að á öllum mælikvörðum þá kemur það út þannig að við erum að setja töluvert mikið af fjármunum í þetta kerfi okkar en árangurinn á alþjóðlegum mælikvörðum er ekki nægjanlega góður. Ég bara velti því upp hérna og spyr hæstv. ráðherra hvernig hann sér fyrir sér að við getum unnið þetta með sveitarfélögunum. Það eru auðvitað sveitarfélögin sem bera ábyrgð á grunnskólanum. Við erum með í fjármálaáætlun góða mælikvarða og ágætisviðmið um það hvernig við ætlum að auka færni t.d. barna í lestri, en honum er því miður verulega ábótavant. En þó að við stöndum hér, ég og hæstv. ráðherra, og segjum: Þetta er mikilvægt, það þarf að gera þetta, það þarf að fjölga kennurum með leyfisbréf og við þurfum að bæta lestrarkunnáttu barna, þá er spurningin: Hvernig getum við séð fyrir okkur að það skili sér svo inn í skólastarfið? Það er svo annað stjórnsýslustig sem ber ábyrgð á þessu (Forseti hringir.) þannig að hvernig getum við, með samhentu átaki, náð þessum markmiðum sem við setjum hér fram?