Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[17:35]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Frú forseti. Ef ég fer rétt með þá vorum við í jöfnunarsjóði, af því að hann heyrir nú undir mig, að samþykkja um daginn að setja ákveðna fjármuni í eins konar móttökuskóla upp á Ásbrú í Reykjanesbæ fyrir þá sem koma fyrst, til þess í raun og veru að undirbúa börnin til að geta tekist á við það að fara inn í skólakerfið. Það er áskorun fyrir þau og auðvitað skólana. Þetta er orðinn það stór hópur, ekki bara flóttabarna heldur bara barna af erlendum uppruna. Ætli það séu ekki orðnir um 50.000 af erlendum uppruna sem búa hér á landi og margir hverjir hafa sest að, alla vega til skamms tíma, og sumir kannski til langvarandi dvalar. Það mun þýða að við erum smátt og smátt að auka þennan hluta af samfélaginu, fjölmenningarsamfélagi okkar þar sem 25–30% eru af erlendum uppruna. Ef við hugsum okkur það eftir 20–30 ár, að það verði sem sagt það hlutfall af ungmennum, þá skiptir alveg gríðarlegu máli að við tökum vel utan um þennan hóp í skólakerfinu. Kennum þeim íslensku, veitum þeim sömu tækifæri og börnum sem tala íslensku sem sitt móðurmál. Við erum hérna á Íslandi að reyna að gera hlutina þannig að grípa svolítið inn í þegar allt er á fullu því þetta er samfélag sem hreyfist mjög hratt. Hagstofan spáði að það yrði einhver lítils háttar fjölgun á síðastliðnu ári, spáði í desember að fjölgunin yrði milli 2.000 og 3.000, en það fjölgaði um 11.000 á síðasta ári. Þannig að við þurfum alltaf að hlaupa hraðar og hraðar. En það sem ég ætlaði í raun og veru að segja er að tækifæri okkar í þessu er að setja fjármuni í íslenskukennslu og halda utan um þessi börn og það er verið að gera það og í þessari fjármálaáætlun eru tæki til þess.