Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[17:38]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Frú forseti. Ég er á svipuðum slóðum og þeir hv. þingmenn sem hér hafa rætt við hæstv. ráðherra á undan mér. Mig langar að byrja á því einmitt að tala um það að 38% 15 ára unglinga ná ekki grunnfærni í lesskilningi og stærðfræði. Þetta kemur frá UNESCO 2020. 34% drengja og 19% stúlkna lesa sér ekki til gagns eftir tíu ára grunnskólanám, segir PISA 2018. Skýrsla innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar 2019 sýnir að 92,5% innflytjenda eru á rauðu og gulu ljósi í íslenskukunnáttu, þau kunna sem sagt ekki að tala íslensku. Skýrsla ASÍ 2020 sýnir að 10,8% 19 ára ungmenna eru hvorki í námi eða starfi. Kostnaður samfélagsins vegna tapaðs mannauðs er gífurlegur og harmleikur fyrir einstaklinga sem fá ekki notið sín í samfélaginu. Fyrst í þessari umræðu kom hv. þm. Oddný G. Harðardóttir og hún beindi máli sínu sérstaklega að andlegum erfiðleikum hjá ungu fólki í framhaldsskólum. Við erum líka að horfa upp á alveg ótrúlegt brottfall nemenda úr framhaldsskólum, sérstaklega ungra drengja. Þess vegna er það, frú forseti, sem maður furðar sig á því af hverju það er ekki gripið inn í það og gripið fastari tökum að kenna börnunum okkar að vera sjálfsörugg, kenna þeim að lesa og láta þeim virkilega líða vel í skólanum vegna þess að staðreyndin er sú að þegar einstaklingur er orðinn 16 ára gamall og hefur væntingar til þess að verða hitt eða þetta þegar hann er orðinn stór, eins og við öll höfum látið okkur dreyma um einhvern tímann á æviskeiðinu, þá keyrir hann og þessir einstaklingar á vegg. Þau geta ekki lesið sér til gagns. Þau geta ekki fylgt því eftir sem námsefnið krefur af þeim. (Forseti hringir.) Ég veit náttúrlega að hæstv. ráðherra er ekki akkúrat barna- og menntamálaráðherra hvað þetta varðar en hann er klókur og klár (Forseti hringir.) og hefur fylgst með því sem ráðherra í hans ríkisstjórn er að gera þannig að ég spyr: Hvað eruð þið að gera, hæstv. ráðherra, í þessum efnum?

(Forseti (ÁLÞ): Forseti vill minna hv. þingmenn á að virða tímamörkin.)