Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[17:54]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það var auðvitað hv. þingmanni líkt að finna þessa villu og gott að geta leiðrétt hana hér í pontu Alþingis. Þarna eiga auðvitað að standa 14% og einhverra hluta vegna hefur talan 1 fyrir framan 4 fallið brott.

Hv. þingmaður minntist hér aðeins á Tækniskólann eða skólana almennt, að þeir fengju bara einhverja tölu frá ráðuneytinu. Eins og ég nefndi þá þarf auðvitað húsnæði, starfsaðstæður og einhver tæki og tól til þess að hægt sé að fara í starfsnám og svo þarf líka kennara. Það hefur líka verið þröskuldur, því að jafnvel þótt menn hafi viljað setja aukið fjármagn til þess að taka inn fleiri af biðlistum undanfarin haust — þau gleðilegu tíðindi hafa loksins tekist að snúa við áhuga á starfsnámi, sem nú er vaxandi — þá eru alls konar hindranir fólgnar í því.

Varðandi Tækniskólann þá verður þetta auðvitað gríðarlega spennandi. Verkefnisstjórnin, sem hefur verið að fjalla um uppbyggingu framtíðarhúsnæðis hans, skilaði tillögum til ráðuneytisins þar sem gert er ráð fyrir að byggður verði skóli af stærðinni 24–30.000 m² sem mun rúma 2.400–3.000, væntanlega við Flensborgarhöfnina í Hafnarfirði eins og planið er. Ég myndi kalla þetta stórsókn. Þarna kæmi öflugur skóli, nýtískulegur og sérhannaður fyrir starfsnám og þetta svið. (BLG: Viðbót eða í staðinn fyrir?) — Auðvitað verður hann að hluta til viðbót en hann er líka í staðinn fyrir það sem fyrir er. En þarna er sókn og reyndar samhliða á átta öðrum stöðum á landinu.