Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[17:57]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég er kannski á svipuðum slóðum og hv. þingmaður sem var hérna á undan mér. Þetta eru búnar að vera ljómandi góðar umræður í dag um þennan málaflokk og ráðherra stendur sig hreint ágætlega miðað við að vera að svara fyrir félaga sinn í ríkisstjórn. En eins og hér hefur komið fram þá þekkjum við öll umræðuna um að efla og styrkja þurfi starfsnámið. Við höfum rætt það held ég í áratugi að það þurfi að gera betur, gjarnan sagt að yfirvöld á hverjum tíma tali um slíkt á tyllidögum. Það kemur auðvitað fram í þessari fjármálaáætlun, hún er ekkert undanskilin því að halda slíku fram, að við þurfum að taka á þessum málaflokki og það er sannarlega rætt um að efla iðn- og verknám um land allt og fjölga útskrifuðum úr slíku námi sem og að fleiri yngri og í grunnskóla velji sér þessa leið. Hafandi komið úr þessu kerfi þá þekki ég það nú talsvert vel, bæði hvað varðar grunnskólann en ekki síður framhaldsskólann. Það hefur verið bent á það að helsta hindrunin fyrir því að fleiri nemendur séu teknir inn í slíkt nám sé t.d. kennsluhúsnæðið og skortur líka á starfsmenntakennurum. Þess vegna finnst mér ánægjulegt að sjá loksins í fjármálaáætlun að húsakostur starfsmenntaskóla verði endurskoðaður heildstætt til næstu tíu ára. Þar undir er sérstök framkvæmdaáætlun um stækkun þeirra. Það kemur líka fram að ráðherra hafi sett fram tímasetta forgangsröðun þess efnis í öllum landsfjórðungum um að byggja við átta starfsmenntaskóla, sem er vel, eins og hæstv. ráðherra nefndi hér. Þess vegna langar mig til að spyrja: Liggur þessi áætlun um forgangsröðun einhvers staðar frammi og hvenær er gert ráð fyrir því að framkvæmdir hefjist? Nú erum við jú í ákveðnum samdrætti, við erum aðeins að hægja á okkur. Er einungis um að ræða einn skóla í einu eða ætlum við að vera með fleiri? Er hugsunin sú að vera með fleiri viðbyggingar í gangi á hverjum tíma?