Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[17:59]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Hún tengist aðeins umræðunni sem var hérna áðan. Eins og ég nefndi, held ég, í fyrra svari þá er gert ráð fyrir að nemendum í starfsnámi muni fjölga verulega eða um 1.700 á sama tíma og þeim mun fækka í bóknáminu sem nemur 2.500. Fyrir vikið og sem betur fer þarf að takast á við það vegna þess að það er vaxandi áhugi á starfsnámi, það hefur tekist loksins. Þetta er ekki bara á tyllidögum, þetta er bara raunveruleg breyting í viðhorfi sem tókst á síðasta kjörtímabili og ég vil nú þakka þáverandi ráðherra fyrir það að hluta og ýmsum sem hafa um það rætt. Ráðuneytið hefur sett fram framkvæmdaáætlun um að auka starfsnámshúsnæði á næstu árum og það er gert ráð fyrir ríflega 10.000 fermetra stækkun. Þessi áform hafa verið kynnt ríkisstjórn sem og opinberlega og um þessa forgangsröðun þar sem verður til að mynda farið í útboð vegna 2. 400 fermetra stækkunar Fjölbrautaskólans í Breiðholti á þessu ári og það er jafnframt verið að vinna að gerð frummatsskýrslu vegna stækkunar Menntaskólans á Ísafirði, Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, Verkmenntaskólans á Akureyri og Fjölbrautaskóla Suðurnesja, en allar þessar framkvæmdir er áætlað að verði boðnar út á næsta ári. Á næsta ári verður síðan unnið að gerð samninga við sveitarfélög og gerð frummatsskýrslna vegna Verkmenntaskóla Austurlands, Fjölbrautaskóla Suðurlands sem og Borgarholtsskóla. Og ég var búinn að nefna að verkefnisstjórnin hafi skilað ráðherra skýrslu vegna Tækniskólans. Þannig að við erum að sjá þarna, að mér sýnist, átta stækkanir á ólíkum stöðum, hringinn í kringum landið, sem segir okkur, held ég, að ráðuneytið horfi til landsins alls í eflingu starfsnáms sem og að í fjármálaáætlun sé stuðningur við það.