Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[18:06]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér málaflokka hæstv. mennta- og barnamálaráðherra að honum fjarstöddum. Ég geri ráð fyrir að hæstv. innviðaráðherra, sem er nú ekki að byrja í pólitík, hafi eitt og annað um þessa málaflokka að segja. Málaflokkar hæstv. mennta- og barnamálaráðherra falla undir málefnasvið 18, þ.e. íþrótta- og æskulýðsmál, en síðan málefnasvið 22 þar sem leikskólanum, grunnskólanum og fullorðinsfræðslunni ásamt stjórnsýslu-, mennta- og barnamálum er fyrir komið. Mig langar af því að tíminn er naumur að horfa sérstaklega á grunnskólann og leikskólann með hliðsjón af farsældinni sem Framsóknarflokkurinn hefur talað fyrir og á að leiða af sér bætta þjónustu við börn og ungmenni og þá samþættingu sem þarf að eiga sér stað eigi markmiðið að nást.

Ef skoðaðar eru þær tölur sem fram koma í fjármálaáætlun er ekki að sjá að tölurnar styðji við fyrirliggjandi áform. Samkvæmt áætluninni er verið að gera ráð fyrir að útgjaldarammi málefnasviðsins lækki um 439 milljónir frá fjárlögum 2023. Þessi lækkun er útskýrð með því að verið sé að fella niður tímabundnar fjárheimildir án þess að það sé skýrt eitthvað frekar. Við erum að sjá málefnasviðið skreppa saman frá því að vera tæpir 5,5 milljarður í það að vera rétt rúmir 5 milljarðar. Maður hlýtur að velta fyrir sér hvort ekki sé verið að stíga þarna skref til baka þar sem við stöndum frammi fyrir fjöldamörgum áskorunum og á það er verið að benda í texta með fjármálaáætluninni. Þar er m.a. tiltekið að mæta þurfi þörfum nemenda með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn og barna í viðkvæmri stöðu. Þá er einnig minnst á veikleika í skólaþjónustu sem þurfi að takast á við. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji að þessi niðurskurður til málefnasviðsins geti teflt farsældinni í hættu.