Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[18:09]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Frú forseti. Ég gæti verið mjög stuttorður og sagt nei, ég hef ekki áhyggjur af því. Ég hef nokkrum sinnum hérna í dag, ekki bara í umræðu um þennan málaflokk heldur einnig minn málaflokk, verið að leggja áherslu á að þessi fjármálaáætlun snýst fyrst og fremst, númer eitt, tvö og þrjú um að sýna í verki stuðning ríkisstjórnarinnar við að styðja við peningastefnu Seðlabankans, að slá á þenslu. Þess vegna eru ekki þær aukningar sem einstaka fagráðherrar vildu sjá og oft er kallað eftir í þessum þingsal. Þannig að ég kalla eftir skilningi á að við erum hérna að sýna fram á aðhald, auknar tekjur til að sýna betri afkomu, til þess að slá niður verðbólgu, til þess að geta í næstu fjármálaáætlunum komið fram með stærri framtíðarsýn um vöxt.

Hins vegar vil ég segja að farsældin í leik- og grunnskóla er ekki bara nýir peningar heldur eru þetta líka breytingar á nýtingu fjármagns. Við erum í raun og veru að breyta svolítið hugsunarhættinum og aðferðafræðinni. Innleiðing farsældar og fjármögnun á tímabilinu er fyrir hendi en, eins og ég sagði líka áðan í umræðu um vinnustaðasjóð við þá sem sitja í fjárlaganefnd, þá er auðvitað alltaf tæki til þess að — og því meira fjármagn, því hraðar geturðu gert það og jafnvel eitthvað aðeins meira á hverjum tíma. En ég hef ekki áhyggjur af því að þetta muni ekki ganga. Skólaþjónustulögin eru í undirbúningi og þessi nýja stofnun sem á að fjalla um þetta. Ég held að við séum svolítið að fara af stað inn í innleiðinguna og að sú fjármálaáætlun sem birtist okkur í dag muni styðja okkur við það. Auðvitað væri með meira fjármagni hægt að gera ákveðna hluti hraðar en ég trúi því að við séum á réttri leið hvað þetta varðar.