Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[18:23]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er rétt sem fram kemur í hennar máli að það eru töluverð álitamál á ferðinni varðandi fjármögnun rannsókna og innviðauppbyggingar í kringum lagareldið og ekki síst að því er varðar Umhverfissjóð sjókvíaeldis. Við höfum það fyrir framan okkur í skýrslu og úttekt Ríkisendurskoðunar að þar segir beinlínis að full ástæða sé til að endurskoða þennan þátt löggjafarinnar sem er löggjöfin um fiskeldissjóð og aðra gjaldtöku í kerfinu. Ég hef sagt það oft hér í ræðustól Alþingis og get sagt það aftur núna að ég er algerlega sammála því að hvort tveggja er mikið umhugsunarefni, þ.e. annars vegar að sveitarfélögin þurfi að sækja um til nefndar, sem er oftar en ekki staðsett á höfuðborgarsvæðinu, til að sannfæra þá nefnd um mikilvægi einstakra þátta í uppbyggingu en enn þá síðra er það fyrirkomulag að Umhverfissjóður fiskeldis skuli vera með þeim hætti að Hafrannsóknastofnun sé háð honum um rekstur lögbundinna verkefna. Kannski gætum við sagt að þetta væru leifar frá gömlum tíma. Tíminn er nú samt ekki svo gamall því að þetta er fyrirkomulag sem hefur verið við lýði í nokkur ár vegna þess að við vildum á einhverjum tímapunkti aftengja það sem við kölluðum markaðar tekjur og vera bara með skýra ráðstöfun á nauðsynlegu fjármagni til reksturs. Það á auðvitað við um þessa hlið reksturs Hafró að því er varðar utanumhaldið um fiskeldi. Þannig að ég tel að þetta sé verðug og mikilvæg ábending hv. þingmanns.