Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[18:54]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Eins og fram kemur í fyrirspurn hv. þingmanns þá er gert ráð fyrir því, eins og ég nefndi hér áðan, að við öflum að hluta til tekna á móti þessum auknu útgjöldum. Á fyrri stigum hafði ég þegar gert tillögur um að auka tekjur af fiskeldi, en niðurstaðan varð sú að ljúka ekki við þá hækkun heldur leggja hana til núna við gerð fjármálaáætlunar í ljósi þess að við höfum fleiri gögn í höndunum, bæði frá Ríkisendurskoðun og frá Boston Consulting Group. Verkefnið Auðlindin okkar, sem stendur yfir, er auðvitað í miðjum klíðum en samt eru komnar bráðabirgðatillögur. Ein af þessum bráðabirgðatillögum er að hækka veiðigjöld, það kemur þar fram. En í fjármálaáætlun, sem lögð er fram til umræðu, segir með leyfi forseta:

„Fram undan er frekari greining á mismunandi útfærslum á veiðigjaldi með það fyrir augum að einfalda kerfið en um leið að hækka veiðigjald á stærri samþættar útgerðir en á móti að hækka frítekjumark til hagsbóta fyrir litlar og meðalstórar útgerðir.“

Þetta er í raun og veru orðalag utan um fyrirséðar og væntar tilteknar breytingar. Síðan mun það auðvitað verða útfært í fjárlagafrumvarpi og bandormi sem fylgir því fyrir árið 2024, með hvaða hætti þetta er gert. En á bls. 59 í því plaggi sem hér er til umræðu er það skýrt að gert er ráð fyrir auknum álögum á stærri útgerðir.