Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[18:56]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegi forseti. Það er gott að hafa tækifæri til að eiga hér orðastað við hæstv. matvælaráðherra og ég ætla að leyfa mér að fjalla um málefni sem ekki er innan fjármálaáætlunar og ég veit að hæstv. ráðherra kemur það í sjálfu sér ekki á óvart. Ég ætla að koma aðeins inn á og ræða um riðuna sem nú, enn og aftur, hefur skotið upp kollinum með tilheyrandi tjóni og búsifjum, verð ég að segja, og miklum missi fyrir þá sem þar standa í.

Við vitum að það eina sem við höfum í hendi í dag er niðurskurður og geri ég ekki athugasemdir við það. En aftur á móti er til aðferð, þ.e. að rækta okkur frá riðunni. Það eru til arfgerðir sem ekki taka riðu og höfum við aðeins byrjað nú þegar á arfgerðargreiningu á fjárstofninum og því miður ekki fundið mjög marga einstaklinga. En vissulega höfum við heldur ekki tekið mjög mörg sýni, hátt í 20.000–30.000 sýni hafi verið tekin og því langar mig að beina því til hæstv. ráðherra hvort við þurfum ekki að gera stórátak í arfgerðargreiningu á fjárstofninum. Þetta er náttúrlega verkefni sem bændur geta ekki staðið í einir og við þurfum að sameinast um það að koma að þessu verkefni með bændum. Því langar mig að beina því til hæstv. ráðherra hvort hún sé mér ekki sammála í því að það þurfi að vera sameiginlegt átak allra.