Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[19:05]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegi forseti. Það er örugglega svolítið hollt að lesa núna í upphafi upp úr stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sem er ekki orðinn neitt sérstaklega gamall.

„Það verður forgangsmál ríkisstjórnarinnar að stuðla áfram að efnahagslegum og félagslegum stöðugleika á kjörtímabilinu.

Ríkisstjórnin mun leggja sitt af mörkum til að stuðla að umhverfi lágra vaxta, hóflegrar verðbólgu …“

Kjörtímabilið er ekki hálfnað og hér erum við að bregðast við svimandi hárri verðbólgu og svimandi háum vöxtum eins og við þekkjum mætavel. Ég veit að það er tilhneiging hjá mörgum að kenna utanaðkomandi aðstæðum um þetta allt saman en málið er auðvitað ekki svo einfalt. Það sem snýr að sjávarútveginum er svolítið óljóst og loðið þegar við ræðum um það hvernig greinin á að greiða fyrir aðgengi að auðlindinni. Það er talað um það, eins og hæstv. ráðherra rifjaði upp áðan, að það eigi að greina mismunandi útfærslur á veiðigjaldi með það fyrir augum að einfalda kerfið, en um leið að hækka veiðigjald á stærri samþættar útgerðir en á móti hækka frítekjumark til hagsbóta fyrir litlar og meðalstórar útgerðir. Ég ætla að fá að tala fyrir hönd þeirra fjölmörgu sem gera í sjálfu sér ekkert mikið með svona orð frá þessari ríkisstjórn á blaði þegar efndirnar þegar kemur að úrbótum í sjávarútveginum hafa verið jafn litlar og raun ber vitni þegar a.m.k. tveir þeirra flokka sem eru í stjórninni hafa fengið að véla um málin.

Mig langar að spyrja líka, af því að þetta er allt svolítið óljóst, þ.e. hverjar mögulegar tekjur geta orðið af þessu, það er óljóst með útfærsluna en maður hlýtur þó að geta lesið þannig í þetta að það sé útilokað að fara einhverja aðra leið en þessa beinu veiðigjaldaleið við það að finna út úr því hvernig heppilegast sé að útgerðin greiði fyrir aðgengið að auðlindunum. (Forseti hringir.) Minn flokkur hefur talað fyrir uppboðsleið í því samhengi og ég velti því fyrir mér í þessari fimm ára áætlun (Forseti hringir.) hvort það megi lesa það út úr þessu að menn séu búnir að ákveða framtíðarfyrirkomulagið en eigi bara eftir að höndla eitthvað smá með útfærsluna.