Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[19:09]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og langar nú aðeins að ydda við þetta að ástæðan fyrir því að ég gef ekki mikið fyrir þessi orð á blaði er einmitt saga þeirra flokka sem hér stýra. Þar hefur mikið verið talað í gegnum tíðina um breytingar á þessu kerfi en lítið orðið um efndir. Ég veit að hæstv. ráðherra hefur verið í stjórnarandstöðu á meðan þeir tveir flokkar sem ég vísa til hafa stýrt landinu og við erum hjartanlega sammála um það allt saman.

Mig langaði líka aðeins að spyrja um landbúnað og kannski svolítið skilvirkari leið til að lækka matvælaverð. Ég tek nefnilega eftir því í þessari fjármálaáætlun, og það er reyndar oft, að manni finnst lenska þegar talað er um landbúnaðarmál, með djúpri virðingu fyrir þeirri mikilvægu atvinnugrein, að það sé ekkert rosalega mikið talað um greinina út frá sjónarhóli neytenda. Bændur eru auðvitað að framleiða matvæli fyrir neytendur í þessu landi. Nú er það þannig, og ég er þá að vísa til margra ára, að landbúnaðarafurðir og ekki síst mjólk og mjólkurafurðir hafa hækkað mun meira í verði en matvæli á heilbrigðum samkeppnismarkaði ef við getum orðað það þannig. Það má líka færa rök fyrir því að kerfið sem við búum við sé svolítið skrýtið að því leyti að við erum öll sammála um að það býr til algerlega frábærar afurðir sem ætti að vera auðvelt að markaðssetja t.d. í útgjöldum sem hreinar og góðar og umhverfisvænar en samt erum við á þeim stað einhvern veginn að það eru allir ósáttir við kerfið. Neytendur eru það, bændur kvarta undan afkomu sinni og við tölum sýknt og heilagt um hvort við séum að verja þeim fjármunum með réttum hætti sem fara til greinarinnar.

Núna erum við hins vegar að tala um verðbólgu og vexti dagsins í dag sem hanga auðvitað saman. Því langar mig að spyrja: Hvað í þessari áætlun gefur okkur til kynna að einhverjar breytingar þarna muni hafa áhrif til skemmri tíma þegar við höfum það sem nokkuð skilvirka leið, og sem einhverjar þjóðir hafa jú gripið til, að fara t.d. í að lækka tolla og gjöld og kannski einkum og sér í lagi tolla með það að augnamiði að lækka verðbólguna? Ég spyr að þessu vegna þess að tollarnir eru oft notaðir sem röksemd til að hlífa greininni sjálfri við samkeppni að utan en minna er hugsað um neytendur.