Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[19:31]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Það er rétt að verkefnin eru mörg, þau eru stór, þau eru brýn og þau eru mörg ný. Við þurfum að máta okkur við nýjan veruleika sem við okkur blasir og þjóðaröryggisstefna tekur á en líka ýmis önnur verkefni. Mörg þeirra kosta. Það að gera okkur betur í stakk búin til þess til að mynda að mæta áskorunum er varða netöryggi kostar. Það má segja að netöryggismálin eigi heima nánast í öllu stjórnkerfinu. Fjarskiptamálin heyra vissulega undir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið, fjölþáttaógnir og þau mál undir utanríkisráðuneytið. En svo hafa öll ráðuneyti ákveðið hlutverk þegar kemur að netöryggismálum og það er alveg klárt að það er okkar heimavinna að tryggja að þau mál séu í lagi. Við náum þeim markmiðum með alþjóðasamvinnu en við þurfum sjálf að passa upp á að þeir hlutir séu í lagi og getum hvorki hallað okkur að Atlantshafsbandalaginu né öðrum bandamönnum í þeim efnum.

Við erum að vinna ýmiss konar vinnu almennt á sviði öryggis- og varnarmála með þéttari, markvissari og dýpri hætti en við höfum gert um langa hríð og það er vegna þeirrar stöðu sem uppi er. Ég hef þannig séð ekki áhyggjur af því að við höfum ekki fjármagn til þess að sinna því vegna þess að það kallar á, eins og ég segi, samstarf, að við tökum sæti við borðið þar sem við eigum rétt á því og við séum að máta þær áætlanir við okkar eigin o.s.frv. En við erum vissulega, eins og hv. þingmaður nefndi, að fá viðbótarfjármagn inn í varnartengd verkefni og það er mjög gott og í mínum huga gríðarlega mikilvægt. Við nýtum það líka til að byggja upp þessa getu og svo til að stilla betur saman stjórnkerfið (Forseti hringir.) og svo okkur, stilla okkur betur saman við það alþjóðasamstarf sem við erum í.