Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[19:37]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F):

Virðulegi forseti. Í fjármálaáætlun er eðli máls samkvæmt lögð áhersla á að vinna að fríverslunarsamningum, bæði á vettvangi EFTA en einnig að tvíhliða viðskiptasamráði á stærstu mörkuðum heims. Orðrétt segir í áætluninni, með leyfi forseta:

„Tækifæra verður leitað fyrir nýsköpun og íslenskar lausnir sem styðja við kolefnislausa framtíð og grænan hagvöxt, svo sem með fríverslunar- og viðskiptasamningum og að nýta þau tækifæri sem gefast innan græna sáttmála Evrópusambandsins. Í samræmi við stjórnarsáttmála verður jafnframt lögð áhersla á frjáls og opin alþjóðaviðskipti, greiðan aðgang íslensks atvinnulífs að alþjóðamörkuðum, afnám viðskiptahindrana og fjölgun fríverslunarsamninga.“

Í þessu tilliti langar mig að spyrja hæstv. utanríkisráðherra um fríverslunarviðræður við okkar stærsta útflutningsland, Bandaríkin. Það er vissulega jákvætt að Ísland státi af fríverslunarsamningi til að mynda við Kína, en þó er útflutningur okkar þangað mun minni en til Bandaríkjanna. Spurningin er eftirfarandi: Eru uppi áform hjá ráðuneyti utanríkismála um að leita leiða til þess að landa fríverslunarsamningi við Bandaríkin og sér ráðherra hindranir fyrir sér í því efni, eða er okkur kannski ekkert að vanbúnaði að óska eftir slíkum viðræðum hið fyrsta?