Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[19:46]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegi forseti. Ég var að velta fyrir mér í eftirmiðdaginn, þegar ég fór yfir þann kostnað sem ráðgerður er og eyrnamerktur ráðuneyti utanríkismála — þar sem við höfum bæði komið við sögu og þó einkum hæstv. ráðherra í síðari tíð — að þegar ég starfaði þar frá 1991 til 1995 eða 1996, þá var heildarbúdsjett ráðuneytisins 1,3 milljarðar, sem væru 4,5 milljarðar í dag. Nú er búdsjettið komið upp í tæpa 30 milljarða og auðvitað er rausnarleg þróunarhjálp hluti af málum þar, sirka 12 milljarðar. Ég veit að hér ber hæstv. ráðherra ekki sök, þetta vill dálítið vinda upp á sig sjálfkrafa; það eru aukin umsvif, fjölgun sendiráða og ýmissa skylduverkefna. En við erum að glíma hér við fjölþættar áskoranir og þurfum helst að draga saman í ríkisrekstrinum með einhverjum hætti til þess að geta verið fullsæmd af því samfélagi sem við búum þeim sem skópu innviðina og færðu okkur þau verðmæti sem við búum að í dag í heilbrigðiskerfi, menntakerfi og öðrum innviðum. En við erum enn þann dag í dag að skattleggja fátækt með þeim hætti að fólk nær ekki endum saman og á ekki mat í ísskápnum.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Væri hún tilbúin að skoða möguleika á því að ná niður 30 milljarða útgerðarkostnaði í utanríkisráðuneyti sínu, þó ekki strax en jafnvel á næstu misserum og árum? Er hæstv. ráðherra sammála þessari hugmynd?