Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[19:56]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég held að spurningarnar mínar verði stuttar en aðeins í tengslum við það sem hæstv. ráðherra var að nefna, sem er að fara vel með fé. Við erum að horfa fram á það að nú erum við að gera kröfur um niðurskurð eða aðhald í flestum ráðuneytum og á sama tíma erum við að sjá miklar breytingar þegar kemur að því öryggisumhverfi sem við búum við. Þetta leiðir m.a. til þess, eins og hæstv. ráðherra benti á, að á tímabilinu er ætlast til að það sé farið í 784 milljóna aðhald í utanríkismálahlutanum á meðan verið er að hækka útgjöld til varnarmála um 930 milljónir. Mig langaði að fá að heyra frá hæstv. ráðherra hvernig ráðherra sér þessa 1,7 milljarða í rauninni sem verið er að taka úr utanríkisþjónustunni og færa yfir í bæði aðhaldið og varnarmálin, hvaða áhrif þetta muni hafa á þá þjónustu sem utanríkisþjónustan veitir og er í kringum viðskipti og að kynna Ísland og ýmislegt þess háttar. Hvar sér ráðherra að hægt sé að fara betur með peningana, ef við notum orð hæstv. ráðherra hér áðan? Hvar munum við skera niður innan utanríkisþjónustunnar?