Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[20:00]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Í seinna innslagi mínu langar mig að tala aðeins um þróunaraðstoðina. Við heyrðum í fyrri ræðu óm af nokkru sem heyrist reyndar dálítið oft, þetta með af hverju við eigum að vera að hjálpa fólki erlendis. Ég man eftir að hafa heyrt hæstv. ráðherra nefna einhvern tíma að innan flokks ráðherra hafi þetta verið svolítið svona: Við þurfum að skera niður. En ég er ótrúlega ánægður að sjá að það er gert ráð fyrir því að halda sig í 0,35%. Ég hefði að sjálfsögðu viljað sjá framlagið hækka, eins og hæstv. ráðherra nefndi, en við erum alla vega ekki að skera niður þetta framlag á sama tíma og verið er að draga úr öðrum ríkisútgjöldum.

Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra: Af hverju telur hæstv. ráðherra að þetta sé mikilvægt og hvernig nær hæstv. ráðherra að sannfæra eigin flokksmenn og aðra um að við verðum að standa vörð um þetta og sinna því mikilvæga hlutverki að vera ein ríkasta þjóð í heimi sem þýðir að við þurfum að styðja við fátækustu þjóðir heims?