Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[20:02]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Fyrst til að bæta við mitt fyrra svar áðan þá eru auðvitað skýringar í fjármálaáætlun um ákveðinn hluta þeirrar hagræðingar og lækkunar á útgjöldum sem snúa að framlögum til uppbyggingarsjóðs EES og sömuleiðis um tímabundin verkefni, tímabundna formennsku o.s.frv.

Varðandi þróunarsamvinnuna þá er ég ánægð með að standa vörð um 0,35%, sérstaklega þegar við horfum framan í frekari umsvif hér á landi sem leiða þá af sér frekari krónur í samvinnuverkefni. Ég held að heilt yfir líti fólk svo á að þrátt fyrir að verkefnin séu alltaf mörg, og það er gangur lífsins og við munum aldrei tæma þann verkefnalista og það verður aldrei þannig að nóg verði gert fyrir alla, þá sé það almennt þannig hjá fólki að það skynji og skilji og líti svo á að hluti af því að vera í þeirri forréttindastöðu sem við heilt yfir og almennt erum í hér í samanburði við meiri hluta jarðarbúa er að sinna þróunarsamvinnu og taka þátt í henni. Ef maður ætlaði bara að hugsa um það út frá köldum hagsmunum þá vill bara þannig til að þetta hangir allt saman; öryggis- og varnarmál og stöðugleiki og friður og það að sem flestir búi við grundvallarmannréttindi og eigi í sig og á. Það skiptir á endanum máli fyrir fólk þótt það búi langt í burtu og lifi allt annars konar lífi.

Stutta svarið er að þetta er eitthvað sem er í mínum huga rétt að gera. Þetta er það sem siðaðar þjóðir gera. Það er skrýtið að hugsa til þess að það er ekki einu sinni svo langt síðan við vorum í raun ríki sem var að þiggja slíka aðstoð og það ætti þá líka að vera gott dæmi um að það er hægt að komast út úr því, af því að mér finnst stundum eins og tilfinningin sé að það sé vita vonlaust að standa í þessu en við gerum það samt. (Forseti hringir.) Það eru líka dæmi um að lönd komist út úr slíkri stöðu.