Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[20:04]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir framsöguna hér á málefnasviði hennar í fjármálaáætlun næstu fjögurra ára. Það er mikilvægt að hafa þennan vettvang til að eiga orðastað við hæstv. ráðherra því að það er ýmislegt sem er ekkert sérstaklega auðvelt að lesa út úr fjármálaáætluninni. Það er ekki allt sem er sett fram til að mynda í markmiðum og töflum og annað, enda væri það kannski aldrei hægt, það er auðvitað bara hægt að tæpa á sumu og þess vegna er nauðsynlegt að geta spurt. Svo eru atriði sem eru sett fram í textaformi og gott að geta nýtt þennan vettvang til að spyrja nánar út í þau. Mig langar hérna í fyrri spurningu minni að inna hæstv. ráðherra um það, því að ég get ekki lesið það almennilega út úr textanum í fjármálaáætluninni, hver sé sjálfstæð stefnumótun Íslands varðandi sértæka öryggishagsmuni Íslands þegar kemur að öryggis- og varnarmálum í breiðum skilningi, óháð mati Bandaríkjanna eða annarra þeirra þjóða sem við eigum í hvað mestu samstarfi við um þessi mál. Mér finnst skipta máli að greina það svolítið og hafa fókus á því hvað sé okkar sjálfstæða stefnumótun, hvað sé okkar greining á því hvað skipti okkar öryggi máli og þá sérstaklega kannski í hinu, í norðurslóðasamstarfinu.