Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[20:09]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég er, og það kemur kannski ekki á óvart, ekki alveg sammála hæstv. ráðherra í því að öryggishagsmunir Íslands séu alltaf þeir sömu og annarra þjóða. Mig langar að nefna Bandaríkin sem dæmi vegna þess að við erum hreinlega staðsett á öðrum stað á landakortinu og erum við þar með í rauninni útvarnir Bandaríkjanna þegar við lítum á þetta bara hnattrænt. Ég ætla ekki að fara dýpra í þá umræðu hér en get hins vegar alveg tekið undir mjög margt í máli ráðherra einnig um það að að sjálfsögðu eigum við að vera í góðu og miklu samstarfi við aðrar þjóðir. En ég tel að það sé mikilvægt að við greinum út frá okkar eigin öryggismati og út frá okkar stöðu. Ég ætla að fagna því að í fjármálaáætlun sé áhersla lögð á gerð áætlunar um framkvæmd þingsályktunar um stefnu Íslands í málefnum norðurslóða. Þar er vísað í stefnu Íslands í þeim málefnum sem var samþykkt hér vorið 2021. Þar held ég að komi fram einmitt mjög mörg atriði sem skipta okkur máli, til að mynda þegar kemur að heilbrigði hafsins. Þar eigum við að hafa fókus. En mig langar að spyrja, vegna þess að í þessum sama kafla er fjallað um að það sé miðað að því að efla stöðu Akureyrar sem miðstöðvar norðurslóðamála á Íslandi án þess að þar sé farið eitthvað nánar í það hvernig eigi að gera það: Er það þá í tengslum við þessa stefnu Íslands í málefnum norðurslóða eða er það eitthvað annað sem þar á að gera? (Forseti hringir.) Því að ég held að þarna geti verið um mjög spennandi verkefni að ræða.