Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[20:32]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Hv. þingmaður hleður hérna í þrjú smámál sem ég ætla að reyna að ná að svara á þessum tæpum tveimur mínútum. Í fyrsta lagi þá er ég er sammála hv. þingmanni um hversu mikilvægt það var að ráða eigin málum og hafa hugrekki og pólitískt hugrekki til að gera það sem þurfti til þess að ná fram, hvort sem það voru stöðugleikaframlög eða það sem var gert sem gerðist ekki af sjálfu sér og skipti máli að hafa svigrúm til að gera. Hins vegar tengist það auðvitað bókun 35 ekki á nokkurn einasta hátt. Þrátt fyrir að það frumvarp sem ég hef lagt fram og þá setningu sem þar er að finna sem felur í sér afmarkaðar og sértækar skýringarreglur til að styrkja innleiðingu á bókun 35 þá felst ekki í því framsal á lagasetningarvaldi.

Alþingi er auðvitað alltaf á hverjum tíma í sjálfsvald sett að setja lög um hvað sem í raun því dettur í hug, svo lengi sem það fer ekki gegn stjórnarskrá. Auðvitað á það ekki að fara gegn alþjóðlegum skuldbindingum heldur, en ef það gerir það þá hafi það afleiðingar. Það er algjör kjarni máls að bókun 35 snýst eingöngu um þegar íslenskt ákvæði í almennum lögum sem Alþingi setur rekst á við annað lagaákvæði. Þótt það komi frá Evrópska efnahagssvæðinu þá erum við alltaf að tala um lög sem hafa verið sett af Alþingi, ekki þannig að það komi einhvern veginn löggjöf frá Evrópska efnahagssvæðinu eða Evrópusambandinu og fari bara sjálfkrafa að hafa einhver áhrif. Það er algjört lykilatriði.

Varðandi flugmálið þá erum við auðvitað ekki í neinum samningaviðræðum við Evrópuþingið sem er að afgreiða þennan pakka í dag. (Forseti hringir.) Af því að hv. þingmaður spyr af hverju við segjumst ekki ekki ætla að innleiða þetta þá hef ég sagt alveg skýrt að við munum ekki innleiða regluverkið óbreytt vegna þess að það skaðar um of íslenska hagsmuni. Það liggur algjörlega fyrir. Við gerum ráð fyrir því og vinnum að því að ná lendingu í það mál, annars verður málið ekki innleitt hér vegna þess að það skaðar hagsmuni Íslendinga.