Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[20:42]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Hv. þingmaður bendir réttilega á að hér er verið að stíga skrefin sem við viljum sjá þegar kemur að grænni fjárlagagerð og auðvitað viljum við sjá meira. Það sem við erum að gera almennt og eins ég kom inn á í framsögu minni þá erum við meira að segja að vinna við að því að deila ábyrgð í samvinnu við loftslagsvísa atvinnulífsins, sem er svona dæmi en tengist í rauninni öllu, það tengist líka því að fá mælanleg viðmið og mælanleg markmið. Þetta snýr ekki bara að upphæðum, þetta snýr fyrst og fremst að losun. Hv. þingmaður spyr hvort það sé metnaður til að vinna með þessu og já, það er enginn ágreiningur um það en hins vegar tekur svolítinn tíma að breyta hlutum. Ég vonast til þess að við sjáum þess frekari merki á næstu árum að við séum að koma með framsetningu á fjárlögum, bæði hjá okkur og sömuleiðis hjá sveitarfélögum og öðrum, fyrirtækjum, að menn séu að birta þetta með þeim hætti að þeir séu að líta á þetta út frá loftslagssjónarmiðunum og losuninni. Hér er sýnt hvernig þróunin hefur verið, þetta hefur náð hámarki 2023. Sumt er þess eðlis að við vonum — það er ekki markmiðið t.d. að vera með styrki þegar kemur að rafbílum. Þróunin að undanförnu hefur fyrst og fremst verið að það er farið í drægnina frekar en að lækka verðin. Þó erum við að sjá lækkun verðs á rafbílum og sú þróun mun halda áfram þannig að við ætlum ekki að halda áfram þeim styrkjum til eilífðarnóns, alls ekki. Þetta er til að koma þessum hlutum af stað. Hins vegar liggur það alveg fyrir, bæði í loftslagsmálum og í því sem snýr að mínum málaflokki, að það mun ekki vanta tilefni til útgjalda til að ná árangri. Það liggur alveg fyrir.