Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[21:03]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er í mínum huga allt í lagi að líkja Íslandi við Disneyland bara svona í ferðamannasamhenginu, það koma milljón sinnum fleiri í Disneyland á hverju ári en búa þar og starfa. Við þurfum að huga að því að þessi áfangastaður, Ísland — að það sé ánægjulegt að ferðast um hann, hvort sem maður er fæddur hér og uppalinn eða ekki. Orðsporsáhætta er tiltölulega nýtt orð og við njótum sem betur fer enn góðs orðspors sem áfangastaður. Við gætum lent í því sem kallað er Benidorm-effektinn þegar fólk segir: Æ, það er of mikið af fólki þarna, þetta er of erfitt. En við getum líka lent í því að vera sökuð um tvískinnung, vera sökuð um að hreykja okkur af grænni orku úr iðrum jarðar, t.d. hér við borgarhliðið á Hellisheiðinni, sem myndi drepa mann á svipstundu ef maður stingi hausnum þar í strókinn. Sömuleiðis það sem er við Nesjavallavirkjun — þetta eru hættulegar gufur. Vonandi verð ég ekki til þess, í þessari beinu útsendingu, að fara að hræða fólk óþarflega en við þurfum að huga að þessu, það er hægt að koma á þetta filterum og mengunarvörnum og það er verið að fresta því óþarflega lengi. Ýtum á það að klára það, bæði á Nesjavöllum og á Hellisheiði. Ég hef áhyggjur af þessu Carbfix, að dæla hundruðum þúsundum tonna af óhreinindum alls staðar að úr heiminum í íslenska foldu og vatnsból þar af leiðandi. Ég hef áhyggjur af þeim efnum sem Bandaríkjamenn hafa skilið hér eftir. Við skulum losa okkur við þau eiturefni, úraníum þar með talið. En eitt er orðsporsáhættutengt og það er sú skammarlega iðja að vera að selja hér aflausnarbréf fyrir umhverfissóða í útlöndum, taka á móti peningum og bæta á okkur sóðaskap annarra. Ég óska eftir því að ráðherra þessa málaflokks stigi niður sómakærum fæti í þeim efnum.