Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[21:07]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Ríkisstjórnin hefur sett sér í stjórnarsáttmála markmið um sjálfstætt landsmarkmið um 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda á beinni ábyrgð Íslands fyrir árið 2030 miðað við losun ársins 2005. Hingað til hefur gengið, ég vil ekki segja treglega en það hefur ekki gengið allt of vel að fá útfært nákvæmlega hvernig þetta verður gert. En í töflu á síðu 285 í fjármálaáætlun sprettur þetta markmið fram sem eitt af undirmarkmiðum hæstv. ráðherra. Samdráttur í nettólosun gróðurhúsalofttegunda er þar einn af þeim mælikvörðum sem lagðir eru til. Staða þessa samdráttar var 7% árið 2022, sé miðað við tölurnar frá 2021 sem eru þær nýjustu sem til eru. Það er stefnt að því að þessi tala verði komin niður í 23% samdrátt árið 2024. Það er á næsta ári. Munurinn á 7% samdrætti og 23% samdrætti eru 16 prósentustig. Losun á beinni ábyrgð stjórnvalda 2005 var 3.178 kílótonn CO2-ígilda. 16% af því sem losað var á beinni ábyrgð stjórnvalda 2005 þýðir að sá samdráttur sem ráðherra leggur til að ná frá stöðunni eins og hún er í dag og til ársins 2024, sem er eftir næstu áramót, eru 508,5 kílótonn. Þetta er dálítið mikið, herra forseti. Þetta er dálítið rosalega mikið. Mig langar að spyrja ráðherrann: Hvernig mun ríkisstjórnin ná þessu metnaðarfulla markmiði?