Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[21:58]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni um mikilvægi þess að við séum með öfluga fjölmiðla. Það tengist hinni lýðræðislegu umræðu og ég held að þeir atburðir sem hafa verið að eiga sér stað núna eins og sú grimmilega innrás sem Úkraína hefur upplifað frá Rússlandi séu rík áminning um það hversu mikilvægu hlutverki fjölmiðlar gegna í hinu lýðræðislega samfélagi. Ég get fullvissað hv. þingmann um það að fjölmiðlar eru mjög ofarlega hjá ríkisstjórninni í því hvernig við ætlum að forgangsraða núna. Eins og fram kemur einkennist þessi ríkisfjármálaáætlun sem nú er verið að kynna skiljanlega af auknu aðhaldi og hagræðingu, m.a. vegna þess að við erum að kljást við verðbólgu sem við höfum ekki séð í langan tíma, en ef hv. þingmaður rýnir í fjármálaáætlunina þá ætti hún að átta sig á því að hér er verið að forgangsraða í þágu fjölmiðla. Að sama skapi er okkur fullkunnugt um þær áhættur sem blasa við og það er ekki bara á Íslandi þar sem fjármunir fara í auknum mæli inn á erlendar efnisveitur, Facebook eða annað slíkt. Í Svíþjóð er það svo að 75% af öllum auglýsingatekjum fara út fyrir landsteinana. Við erum hér í 45% og skerum okkur svolítið úr hvað það varðar þannig að það er einfaldlega rangt hjá hv. þingmanni að halda því fram að hér sé ekkert búið að sinna fjölmiðlum.