Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[22:00]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa yfirferð. Fyrst langar mig að byrja á að segja að ég fagna mjög því að menningarmálin hafi verið tekin út úr mennta- og menningarmálaráðuneytinu gamla. Eins mikilvægt og það ráðuneyti er þá er það með svo ofboðslega stóran málaflokk sem eru menntamálin, þannig að ég fagna því mjög og bíð í rauninni spennt eftir því að sjá meiri niðurstöður í því sem verið er að vinna núna í þessum stefnum mismunandi listgreina því ég hef alveg æpandi trú á skapandi greinum og að það séu einmitt þær stoðir sem við eigum að vera að byggja undir núna. Ég ætlaði bara að fá að nefna það hér.

Mig langaði reyndar líka að ræða um fjölmiðla í þessu stutta innslagi hérna. Við hv. þm. Helga Vala Helgadóttir sitjum báðar í allsherjar- og menntamálanefnd og þetta mál brennur svolítið á okkur þar, enda erum við í fyrramálið einmitt að fara að fjalla um styrki til einkarekinna fjölmiðla og fá til okkar gesti. Það er svo sem ekkert launungarmál að ég hef haft efasemdir um beina fjármagnsstyrki til einkarekinna fjölmiðla en allsherjar- og menntamálanefnd fór í fræðsluferð til Noregs og Danmerkur í haust og við skoðuðum vel þau kerfi sem þar eru og það er alveg ljóst að öll nágrannalöndin okkar veita styrki. En það sem ég held að skipti svo miklu máli, og hæstv. ráðherra kom aðeins inn á það, er að það sé heildstæð stefna og við séum að horfa á stóru myndina. Ég heyrði að hæstv. ráðherra boðaði slíka stefnu í haust, henni hefur kannski eitthvað seinkað, hún átti að koma í vor. En hæstv. ráðherra talaði um að það væri þá verið að vinna það í öflugu samstarfi og ég fagna því mjög. En ég ítreka að ég held að það sé ofboðslega mikilvægt fyrir okkur sem samfélag, sem hæstv. ráðherra kom inn á, að innrásin í Úkraínu vekur okkur öll til umhugsunar um það að lýðræðið er ekki sjálfgefið. Það þarf að hafa fyrir því og fjölmiðlar spila þar alveg ofboðslega stórt hlutverk. Það er alveg ljóst að íslenskir fjölmiðlar standa mjög höllum fæti þannig að ég ítreka mikilvægi þess að við horfum á stóru myndina. Spurning mín til ráðherra er kannski af sambærilegum toga: Hvernig sjáum við þessa heildarmynd okkar (Forseti hringir.) um það hvernig við ætlum að taka á þessu svona vítt og breitt?