Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[22:17]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um að það er mjög mikilvægt að við fylgjumst mjög náið með þeirri stöðu sem upp er komin vegna verðbólgunnar sem nú ríkir. Stjórnvöld eru í góðu samstarfi við fjármálastofnanir til að fara yfir og fá yfirlit yfir öll þau lán sem munu hækka verulega á næstu mánuðum, hvernig þetta lítur út, og á næsta ári. Í samtölum við fjármálastofnanir þá segja þær allar að það ófremdarástand sem ríkti hér á árunum 2009–2013 verði ekki endurtekið. Ég tel að við höfum mun betri yfirsýn yfir stöðu heimilanna en þá. Það sem hefur verið að gerast núna á síðustu mánuðum er að við höfum séð að vanskil eru eitthvað að aukast en þau hafa ekki aukist eins mikið og ég hafði áhyggjur af í byrjun árs. Það þýðir hins vegar ekki að það geti ekki gerst mjög hratt vegna þess að við höfum verið að horfa upp á stýrivaxtahækkanir, miklar hækkanir á skömmum tíma. Ef við förum að upplifa vanskil þá getur það gerst býsna hratt. En ég vil fullvissa hv. þingmann um að við erum að standa þessa vakt og það má ekki endurtaka það tímabil sem við upplifðum hér í kjölfar fjármálahrunsins.