Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[22:22]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að skýrslu var skilað árið 2018 og við kynntum svo í kjölfarið tillögur um hvernig mætti styðja betur við frjálsa fjölmiðla og hvert væri hlutverk RÚV. Þetta stuðningskerfi kom til framkvæmda og í fyrsta sinn var verið að styðja við frjálsa fjölmiðla með þessum hætti. Varðandi auglýsingatekjur þá spyr hv. þingmaður hvers vegna ekki er búið að fanga þessar tekjur sem eru að fara úr landi. Það er nú svo að það er nýverið farið að skattleggja erlendar streymisveitur víða erlendis og í Evrópu og eins og kom fram í máli hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur þá hafa dönsk yfirvöld lent í ákveðnum vandræðum með þessa skattlagningu þannig að það er kannski ekki alls kostar rétt sem kemur fram í máli hv. þingmanns að þetta sé víða við lýði. En þetta er núna að koma til framkvæmda og þess vegna erum við að taka saman höndum, ég og fjármála- og efnahagsráðherra, til að ná tökum á þessu. Eitt af því sem hefur verið gert er að það hefur ekki beint verið skattlagning heldur ákveðið menningarframlag eins og Frakkar hafa farið í og við erum með mjög gott yfirlit yfir allar þær aðgerðir sem mörg ríki eru að skoða eða eru að hrinda í framkvæmd þessa dagana. En ég vil líka benda hv. þingmanni á það að þróunin á þessum markaði hefur verið mjög hröð og það hefur ekki endilega allt sem hefur verið gert til að styðja við frjálsa fjölmiðla erlendis reynst farsælt. Mig langar að nefna eitt dæmi. Frakkar og Spánverjar fóru í það að taka af markaði ríkisfjölmiðla sína og hvað gerðist í kjölfarið? Allar þessar tekjur meira og minna fóru út fyrir landsteinanna. Þannig að stundum, eins ótrúlegt og það má virðast, þá getur verið ágætt að halla sér aftur og athuga hvort þessar aðgerðir muni skila raunverulegum árangri eða ekki.