Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[22:24]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það er reyndar ekki alveg rétt eftir mér haft, ég sagði að þetta væri víða en ég veit að þetta er gert í einhverjum ríkjum og hefur gengið upp. Ég játa að mér er það enn þá talsvert óljóst nákvæmlega hvar hindranirnar liggja hvað þetta varðar. Nú eru komin tvö ár síðan hæstv. ráðherra lagði áherslu á það sjálf í fjölmiðlum að þessi skattlagning væri forgangsmál. Þetta er enn það atriði sem er kannski fyrst og fremst verið að lýsa áhyggjum af eins og kemur fram í umsögnum og öðru í málinu sem við erum að fjalla um. Það var niðurstaða m.a. allsherjar- og menntamálanefndar bara fyrir tveimur árum síðan líka í tengslum við frumvarp um stuðning við einkarekna fjölmiðla. Þá var hvatt til þess að þessari vinnu yrði hraðað. Mig langar til að ítreka þá spurningu til hæstv. ráðherra: Hvað er það sem stendur þessu í vegi? Það er enn þá svolítið óljóst. Þá langar mig að ítreka fleiri spurningar sem ég kom með í ræðu minni áðan sem kannski drukknuðu í þessu, varðandi nánari útfærslu þeirra aðgerða sem lagðar eru til í fjármálaáætlun, t.d. þessi hvatning til frekari áskrifta eða annað slíkt. Það er ekki ljóst hver útfærslan á þessu gæti verið. Ég held að atburðir síðustu vikna og mánaða sýni okkur að það er ástæða til þess að hafa verulegar áhyggjur. Þetta er í rauninni ekki eitthvað sem getur beðið, að tryggja að hér þrífist frjáls og sjálfstæð fjölmiðlun, og það er í rauninni komið í óefni. Það má segja að við séum fallin á tíma. Mig langar því líka til að beina þeirri spurningu almennt til hæstv. ráðherra hvort hún hafi ekki meiri áhyggjur af þessari stöðu en svo að það sé bara tilefni til að skipa enn einn starfshópinn sem við vitum ekki hvað á að taka mörg ár í að koma kannski með nákvæmlega sömu tillögur.