Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[22:29]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hefur farið fram hér í dag og hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra fyrir framlag sitt í þá umræðu. Það er mikilvægt að við skipum okkur í fremstu röð á sviði lista og menningar en hagræn áhrif listgreina í samspili við atvinnulífið eru veruleg. Þetta á m.a. við í bókmenntum, hönnun, myndlist, sviðslistum, tónlist, tölvuleikjagerð og ekki síst í kvikmyndagerð. Kvikmyndastefna frá árinu 2020–2030 er í gildi. Í framkvæmd stefnunnar felst m.a. að miðla íslensku kvikmyndaefni og styðja við framleiðslu þess. Þetta er mikilvægur hluti í menningu þjóðarinnar og eigum við nú þegar allnokkurn menningararf sem felst í innlendri kvikmyndagerð. Í fjármálaáætlun segir m.a. að kvikmyndir styrki stöðu íslenskrar tungu og komi Íslandi á framfæri erlendis. Sömuleiðis segir að unnið verði að breytingum á kvikmyndalögum vegna framleiðslustyrkja til lokafjármögnunar sjónvarpsþáttaraða. Enn fremur segir, með leyfi forseta:

„Vaxtarsprotar eru fólgnir í greininni, hvort heldur sem er að fjölga menntuðu fólki eða styðja enn frekar við kvikmyndagerð sem listgrein og sem mikilvæga atvinnugrein.“

Við kvikmyndagerð á Íslandi starfar nokkur fjöldi fólks. Lengi hefur verið bent á að starfsumhverfi þessa fólks sé ekki eins og almennt gerist á vinnumarkaði og mikilvægt er að hvetja framleiðendur til að semja við fagfélög innan greinarinnar. Því spyr ég hvort ekki megi gera gangskör að því að bæta starfsumhverfi þess fólks sem vinnur við kvikmyndagerð á Íslandi, því að ég tel að það sé hagur greinarinnar og þess menningararfs sem hún geymir að bæta það umhverfi.

Ég vil sömuleiðis spyrja ráðherra hvort fjölgun menntaðs fólks innan greinarinnar, eins og segir í fjármálaáætlun, sé liður í því að breyta og bæta starfsumhverfi þeirra sem starfa við kvikmyndalist á Íslandi.