Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[22:34]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra fyrir góð svör. Ég vil sérstaklega fagna því að við hæstv. ráðherra erum að tala sama tungumál þegar kemur að hinum almenna starfsmanni, að það verður að tryggja réttindi og öryggi allra sem vinna við kvikmyndagerð og þar má enginn vera undanskilinn.

Mig langar svo að nota seinni ræðu mína, þann stutta tíma sem ég á eftir af henni, til þess að segja að hið íslenska kvikmyndavor er í raun löngu liðið. Það er fyrir löngu komið sumar í þeim efnum og jákvæð hagræn áhrif kvikmyndagerðar eru ótvíræð. Kvikmyndagerð á Íslandi er að stórum hluta fjármögnuð með opinberu fé. Það er eðlilegt í ljósi þess að við viljum áfram gera vel í þessum efnum. Kvikmyndir gegna mikilvægu hlutverki í málvernd og miðlun tungumálsins okkar og má með sanni segja að innlend kvikmyndagerð styrki stöðu íslenskrar tungu. Markmið kvikmyndastefnu er, með leyfi forseta:

„… að íslensk kvikmyndagerð megi blómstra og dafna á komandi áratug. Henni er ætlað að styrkja íslenska menningu og tungu og sjálfsmynd þjóðarinnar, efla atvinnulífið og stuðla að sterku orðspori Íslands.“

Í þessu samhengi vil ég spyrja hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra hvort hún sjái fyrir sér að auka hlut tungumálsins á einhvern hátt og leggja áherslu á talsetningar á íslensku. Ef svo er, er þá gert ráð fyrir því í þessari fjármálaáætlun?