Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[22:36]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með hv. þingmanni um mikilvægi tungumálsins, sér í lagi í kvikmyndum og íslenskum kvikmyndum. Það er auðvitað þannig að ef við ætlum að segja sögur og viðhalda og styðja við tungumálið okkar þá þurfum við að geta sagt þessa sögu á íslensku. Hæstv. ráðherra óskaði eftir auknum fjármunum til að styðja enn frekar við talsetningu vegna þess að ég tel að talsetning gegni mjög mikilvægu hlutverki, líka til að auka lesskilning og leshraða þeirra sem eru á þeim aldri að vera að tileinka sér það. Við þurfum eitthvað að fresta frekari sókn varðandi það. Það er hins vegar svo að vegna þeirrar miklu áherslu sem stjórnvöld hafa lagt á máltækni þá erum við komin með alveg gríðarlegan orðabanka, ef ég má orða það þannig, sem við getum mögulega notað við talsetningar með aðstoð gervigreindar. Eins og við sjálf höfum tekið eftir hafa breytingar verið mjög hraðar vegna þessa og við höfum farið í samstarf við erlenda aðila, eins og til að mynda OpenAI. Við erum því að horfa á mögulegar nýjar lausnir hvað þetta varðar. Við erum alla vega búin að fjárfesta í þessum grunninnviðum tungumálsins og ég bind vonir við að við munum fá ákveðnar lausnir þar og kannski þurfum við ekki að bíða svo lengi og þær verði hagkvæmari en við höfum verið að skoða áður.