Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[22:51]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar en ég verð að viðurkenna að mér fannst þær hvorki býsna skýrar né markvissar. Fyrst langar mig að gera athugasemd við þá yfirlýsingu að RÚV hafi sogað allt fé út úr Kvikmyndasjóði. Það væri mjög gott ef hv. þingmaður gæti gert betur grein fyrir því, það er einfaldlega rangt. Í öðru lagi nefnir hv. þingmaður styrkjafyrirkomulagið og það er auðvitað svo að það er endurskoðun á því. Við höfðum hugsað okkur að þetta yrði mögulega tímabundin brú þar til við værum komin með fyrirkomulag sem aukinn fyrirsjáanleiki væri í og hinir frjálsu fjölmiðlar gætu gert ráð fyrir því, þegar þeir eru að gera sínar ráðstafanir. Það kann að vera að eitt af því sem við munum gera, og ég tel að sé hagkvæmt og snjallt, sé að leggja meiri áherslu á áskriftir og hvetja fjölmiðla til þess að afla sér fjár í gegnum áskriftir. Þá verða þeir sjálfbærari, þeir verða sjálfstæðari.

Ég skil mætavel þá gagnrýni sem styrkjafrumvarpið hefur fengið en það er hins vegar svo að slíkt fyrirkomulag er við lýði á Norðurlöndunum. Eins og hv. þingmaður áttar sig fyllilega á þá er það þannig að þær breytingar sem hafa átt sér stað á tekjuöflunarmódeli fjölmiðla eru í raun og veru einstakar. Það má í raun bera þetta saman við opið og lokað hagkerfi og fjármagnsflutninga. Fyrir 20 árum eða svo var lokað fyrir alla fjármagnsflutninga til og frá landinu og það var mjög erfitt að fjárfesta, fjármagnsflutningar inn og út voru erfiðir. Að sama skapi eru fjölmiðlar allt í einu komnir í umhverfi þar sem tekjurnar fara fram og til baka og við erum að reyna að ná utan um þetta til að styðja við sjálfstæða fjölmiðla.