Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[22:56]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég ætla aðeins að víkja að fyrstu fyrirspurn hv. þingmanns. Það er einfaldlega ekki rétt að hv. þm. Óli Björn Kárason hafi stutt þetta frumvarp, hann sat hjá. Í öðru lagi, varðandi Kvikmyndasjóð, þá er það að sjálfsögðu ekki svo að RÚV þurrki það allt upp. Kvikmyndasjóður er í kringum 1,2 milljarðar á ári. Það kann að vera að ég sé ekki alveg með töluna á hreinu en það er af og frá að RÚV sé að hreinsa það algerlega upp, jafnvel þó að RÚV hafi fengið ákveðna styrki þaðan. Ég fer þess á leit við hv. þingmann að í ræðupúlti hér á Alþingi Íslendinga séu ekki falsfréttir eða upplýsingaóreiða.

Varðandi Borgarskjalasafnið og Þjóðskjalasafnið þá er það mín skoðun að það sé afar brýnt að gæta að öllum þeim menningarverðmætum sem eru á Borgarskjalasafninu. Nú hefur verið settur á laggirnar starfshópur til að skoða Borgarskjalasafnið og ekki bara það heldur héraðsskjalasöfnin um allt land sem eru með mikil menningarverðmæti og geyma byggðasögu og annað slíkt. Það er óhugsandi í mínum huga að öll sú starfsemi verði lögð niður. Þetta er til skoðunar í ráðuneytinu. Að lokum er ég hjartanlega sammála hv. þingmanni um mikilvægi þess að huga að menningarverðmætum við sjávarsíðuna vegna þeirra áskorana sem eru til komnar vegna þess að sjór er að fara inn á landið og menningarverðmæti mögulega að glatast vegna þess, þar er ég sammála. En ég beini því til hv. þingmanns að skoða betur staðreyndir varðandi fjölmiðla.