Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

Störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Það er stefna íslenskra stjórnvalda að halda norðurslóðum sem lágspennusvæði og vinna gegn hernaðaruppbyggingu á því svæði. Það er eitthvað sem ég held við getum öll verið sammála um að sé gott markmið. En hvað sýna verkin? Það hefur aldrei verið meiri fjárfesting í innviðum fyrir hernað hér á landi en á undanförnum árum. Það hefur aldrei verið meiri viðvera herliðs en akkúrat síðustu árin í háa herrans tíð. Síðustu þrjú ár hefur viðveran nærri tvöfaldast, farið úr 150 hermönnum að meðaltali á hverjum degi árið 2020 upp í 270 á dag á síðasta ári. Í svari utanríkisráðherra kemur fram að íslensk stjórnvöld hafi fullt forræði á því hvaða liðsafli er á Keflavíkurvelli. Þetta er ákvörðun stjórnvalda. Hér er kafbátaeftirlit árið um kring. Eðli vallarins er að breytast með því að í ágúst 2019 og í september 2021 voru B-2 sprengjuflugvélar sendar í æfingaleiðangur til Keflavíkur. Svar utanríkisráðherra við því hverju það sætti var að vera vélanna gerði flugher Bandaríkjanna kleift að sýna fram á getu sína til að gera sprengjuflugvélar út frá ólíkum tímabundnum staðsetningum í Evrópu. Það er verið að sýna máttinn. Það er verið að færa hann út og inn á norðurslóðir. Í mars á þessu ári bættist síðan í hópinn svokölluð dómsdagsvél, flugvélin sem er stjórnstöð fyrir kjarnavopnabúr Bandaríkjanna ef allar landstöðvar brenna í stríðseldi. Og nú er svo komið að það er búið að gera samkomulag á milli íslenskra og bandarískra stjórnvalda um að kafbátar Bandaríkjahers geti lagt hér rétt fyrir utan landsteinana og Landhelgisgæslan færi þeim síðan vistir og hjálpi þeim að skipta um áhafnarmeðlimi. (Forseti hringir.) Þetta snýst ekki bara um þægindi. Þetta snýst ekki bara um að einfalda kafbátum störf sín. Nei, þetta snýst, eins og hinar aðgerðirnar, (Forseti hringir.) um að senda skýr merki, um að hnykla vöðvana, auka hervæðingu á norðurslóðum. (Forseti hringir.) Ég velti því fyrir mér, forseti, hvort ekki sé kominn tími til að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur gangist við því að hún er ekki að vinna gegn hervæðingu heldur beinlínis með henni á norðurslóðum.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir á áður fram komna athugasemd um ræðutíma í störfum þingsins.)