Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

Störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Þessa vikuna ræðum við þingmenn fjármálaáætlun hér á þinginu. Ég átti í orðaskiptum við hæstv. innviðaráðherra í gær um þá alvarlegu fjárhagsstöðu sem enn er komin upp hjá Reykjavíkurborg, langstærsta sveitarfélagi landsins. Ég hef skiljanlega áhyggjur af því að staðan þar og slæmar horfur hafi neikvæð áhrif á ríkisfjármálin. Glöggir hafa tekið eftir því að þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég tek upp málefni Reykjavíkurborgar hér á þinginu. Ég er auðvitað íbúi í Reykjavík og þingmaður Reykvíkinga, en ég er líka fyrrum varaborgarfulltrúi.

Mér hefur þótt full ástæða til þess að stíga inn í þau mál sem okkur varða, þar sem borgaryfirvöld virðast ekki sinna hlutverki sínu. Ég hef m.a. rætt hér ábyrgð Reykjavíkurborgar þegar kemur að húsnæðismálum og menntun barna á fyrsta skólastiginu, en rótin að þessu öllu er auðvitað viðhorf meiri hlutans í Reykjavík; forgangsröðunin hinum megin við Vonarstrætið. Það ætti að vera mikið áhyggjumál fyrir stjórnvöld og okkur hér sem sinnum eftirliti, hvernig fjármálum er stýrt í Reykjavík. Það er risamál hvernig hallarekstur fer hratt vaxandi og að hallinn sé margfaldur á við það sem hefur verið áætlað. Skuldasöfnun borgaryfirvalda er ógnvænleg og vítahringur hallareksturs og skuldasöfnunar virðist ekki verða rofinn í bráð. Meiri hlutinn í Reykjavík heldur nefnilega áfram að eyða umfram efni og það þrátt fyrir stórauknar tekjur. Hæstv. innviðaráðherra hefur e.t.v. eitthvað til síns máls þegar hann nefnir hvort tilefni sé fyrir okkur hér til að endurskoða regluverkið þegar kemur að eftirliti með sveitarfélögunum. En fyrst og fremst verður Reykjavíkurborg auðvitað að stöðva þessa óráðsíu og fara að bera meiri virðingu fyrir fjármunum íbúa sinna og verkefnunum sem borgin á að sinna.