Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

Störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Það er fullt tilefni til að byrja á því að taka undir með hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttur varðandi ófremdarástandið í Reykjavík. En ég vil þá minna hv. þingmann á það, sem fulltrúa meiri hlutans hér, að fyrsta skrefið fyrir ríkisstjórnina til að taka á þessu er að hætta að ýta undir þetta ófremdarástand með því að taka við vandamálum frá borginni, skjalasöfnum eða öðru, eða að ýta undir útgjöldin eins og með fráleitu borgarlínuverkefni.

En ég ætla ekki að tala um borgarstjórn Reykjavíkur í þessu tilviki heldur annað á vissan hátt sambærilegt fyrirbæri sem er Evrópusambandið. [Hlátur í þingsal.] Nú er Evrópuþingið nýbúið að ræða, bara í gær, og greiðir atkvæði um í dag, áform um að reyna að draga úr flugi eins og nokkur kostur er og troða fólki upp í járnbrautarlestar. Þar var nú ekki að heyra margar raddir vara við þessum áformum á svipaðan hátt og íslensk stjórnvöld hafa þó reynt að gera. Nú heyrði ég í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins viðtal við hæstv. utanríkisráðherra sem sagði að vinnan væri enn í fullum gangi í sérstakri nefnd sem hefur það hlutverk að leysa úr þessu og hún gengi bara ljómandi vel. En hver er afraksturinn? Það hefur ekkert breyst. Þetta fer að minna á söguna um aðgerðina sem gekk ljómandi vel þó að sjúklingurinn hafi reyndar dáið. Það er það sem ég óttast að gerist með þetta mál, ef við hér á þinginu pössum ekki upp á að þetta komist ekki í gegn, þá verði það kynnt með einhverjum málamyndabreytingum, einhverjum smá tímafresti hugsanlega eða einhverju slíku, en muni engu að síður hafa þær afleiðingar sem við óttumst og ríkisstjórnin óttast. Hefur hún dug í sér til að segja bara nei? Ég held það sé tími til kominn að íslensk stjórnvöld segi bara: Nei, við ætlum ekki að innleiða þetta, frekar en að tala stöðugt um að við viljum ekki vera stikkfrí og eitthvað slíkt. Það fæst engin niðurstaða um aðlögun sem hentar Íslandi. (Forseti hringir.) Það er tímabært að segja nei. Ef við gerum það þá verður Evrópusambandið kannski til í að ræða hlutina eitthvað.