Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[14:22]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég gæti sagt að það þýði ekki mikið að rífast um að þessi áætlun er fyrir árin 2024–2028 þannig að augljóslega tekur hún til þess sem gerist á næsta ári en ekki á árinu 2023. Ég fór hér yfir og nefndi nokkra þætti eins og sérstaka vörn fyrir tekjulægstu hópa eins og öryrkja. Ég ætla að leyfa mér líka að minna hv. þingmann á, hafi hann mögulega gleymt því, að fyrir áramót voru kynntar töluverðrar aðgerðir til að efla barnabótakerfið og koma betur til móts við barnafólk á Íslandi, fjölga þeim fjölskyldum um 3.000 sem eiga rétt á stuðningi vegna barna sinna. Ég vil líka minna hv. þingmann á að á sama tímapunkti hækkuðum við húsnæðisstuðninginn, bæði fyrir eigendur og leigjendur, til að koma betur til móts við fólk á húsnæðismarkaði sem einmitt er að finna fyrir áhrifum verðbólgunnar. Þannig að öll orðræða hv. þingmanns um að hér sé beðið með að styðja við almenning, hún stenst enga skoðun. (Gripið fram í.) Í þessari áætlun erum við hins vegar að fjalla um aðgerðir á árunum 2024–2028 og vissulega er ekki öll tekjuöflunin sem leggst á lögaðila sem ég fór yfir í fyrra svari. Það er auðvitað verið að gera ráð fyrir breyttri gjaldtöku á umferð og samgöngur, eðlilega, af því að við erum að sjá orkugjafa í samgöngum á landi breytast, sem betur fer, og það þýðir að sú tekjuöflun sem komið hefur frá því kerfi, hún mun eðli málsins samkvæmt halda áfram að rýrna hraðar en hún hefur þegar rýrnað. Eðli máls samkvæmt verðum við að taka upp nýtt gjaldkerfi af umferð og vissulega er það almenningur sem mun að einhverju leyti borga þann brúsa, ásamt auðvitað þeim lögaðilum sem nýta samgöngukerfið, þannig hefur það verið hingað til og þannig verður það áfram, og það er hluti af þeirri tekjuöflun sem lagt er til að ráðist verði í á árunum 2024–2028.