Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[14:33]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum hér að ræða fjármálaáætlun 2024–2028. Eftir þessa erfiðleika við að koma henni á laggirnar, þá fæðingarhríð sem stóð yfir, þá hélt ég að það myndi komi eitthvað bitastætt út úr þessu en því miður virðist ekki vera mikið nema bara roð á beinunum í þessari fjármálaáætlun fyrir aldraða, fyrir öryrkja, fyrir heilbrigðiskerfið. Það er eiginlega bara sorglegt vegna þess að þarna er löngu kominn tími til að sýna fram á virkilega góða áætlun fram undan um það t.d. að útrýma fátækt. Því miður sést það ekki. Nú er hæstv. forsætisráðherra enn þá að glíma við mikið af vandamálum, sem flokkur hennar lofaði að takast á við fyrir kosningarnar 2017, á borð við spillingu, slæma stöðu í heilbrigðiskerfinu og fátækt. Getum við tekist á við þessi vandamál ef ríkissjóður þarf á sama tíma að lækka heildarskuldir um sem nemur 5% af landsframleiðslu yfir þriggja ára tímabil? Hvernig sér hæstv. forsætisráðherra fyrir sér — ef við tökum þessa gömlu frasa um að biðtími þeirra fátæku sé löngu liðinn, að þeir eigi rétt á því að fá hjálp — í framtíðinni, í þessari fjármálaáætlun og því sem ríkisstjórnin er að gera, möguleika á að það sé virkilega verið að útrýma fátækt?