Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[14:35]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir að vekja máls á tveimur stórum málaflokkum, heilbrigðismálum og síðan málaflokki örorkulífeyrisþega. Ég verð nú að segja að ég tel að þessi fjármálaáætlun feli í sér allnokkur tíðindi hvað það varðar þar sem gert er ráð fyrir nýju og einfaldara greiðslukerfi almannatrygginga á árinu 2025. Von er á frumvarpi með tillögum að endurskoðuðu og breyttu kerfi sem verður gagnsærra, sanngjarnara og einfaldara og gert er ráð fyrir 16,5 milljörðum til viðbótar inn í þetta kerfi vegna þessara kerfisbreytinga. Þannig að ég hefði nú talið að ég og hv. þingmaður gætum sammælst um að þetta væri gríðarlega mikilvægt og ánægjulegt skref því að ég held við séum sammála um að þetta kerfi hefur ekki þjónað tilgangi sínum með fullnægjandi hætti á undanförnum árum. Þetta eru stórtíðindi og það verður unnið að undirbúningi þessara breytinga bara á þessu ári og á því næsta, á árinu 2024, með upptöku og innleiðingu á nýju kerfi og gert er ráð fyrir hátt í hálfum milljarði vegna innleiðingarinnar á árinu 2024.

Ég vil minna á það, sem ég sagði líka í inngangsorðum mínum, að við gerum ráð fyrir því að verja kaupmátt bóta almannatrygginga, eins og við höfum gert hingað til, fyrir áhrifum af verðbólgu þar sem við munum, líkt og í fyrra, hækka örorkulífeyri almannatrygginga um mitt ár til að mæta þessari stöðu sem er uppi og verja kjör öryrkja. Ég vil líka nefna það að þessar breytingar koma ekki eftir skeið þar sem ekkert hefur verið gert. Það hefur einmitt verið dregið markvisst úr skerðingum á undanförnum árum í þessu kerfi, nú síðast bara um áramótin þegar við hækkuðum frítekjumark vegna atvinnutekna örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega.

Ég ætla að nefna aðeins heilbrigðismálin hér í mínu síðara svari því að mér vinnst ekki tími til þess nú en ég verð að segja að ég tel þessa fjármálaáætlun geyma gríðarlega jákvæð tíðindi um breytingar fyrir örorkulífeyrisþega í þessu landi.