Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[14:45]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Það er auðvitað ekki svo að ég telji að þessi mál séu ekki vandamál á Íslandi eins og hv. þingmaður spyr. Hins vegar snúast þau mál ekki bara um stóru rammana í ríkisfjármálum, enda er búið að samþykkja hér mismununarlöggjöf, bæði innan og utan vinnumarkaðar. Jafnréttisstofa hefur farið með eftirlit með þeim lögum og kærunefnd jafnréttismála hefur fengið útvíkkað starfssvið. Vonandi erum við að fara að samþykkja hér á þingi þingsályktunartillögu mína um aðgerðir gegn hatursorðræðu sem er nátengd því sem hv. þingmaður nefnir. Í fjárlögum ársins í ár eru fjármunir áætlaðir í þessa tilteknu aðgerðaáætlun sem hefur nú verið töluvert rædd hér í þinginu með ýmsum hætti. Þar munum við fá mjög góða sýn á það hvernig þær aðgerðir sem þar eru lagðar til, sem felast ekki síst í því að byggja á þeirri löggjöf sem við höfum þegar samþykkt hér á Alþingi, hvort sem það er löggjöfin um kynrænt sjálfræði eða mismununarlöggjöf eða hvað annað, hvernig sú löggjöf er að skila sér. Hv. þingmaður nefnir hér að ekki hafi komið mál inn á borð kærunefndar jafnréttismála. Mjög margt í þessum málaflokki bendir til þess að fræðslu og umræðu sé þörf og það er einmitt höfuðáherslan í þingsályktunartillögunni sem liggur hér á borðum þingmanna og ég vona að verði samþykkt því að, eins og ég segi, við erum tilbúin með fjármuni í þá áætlun og hún mun auðvitað líka skila okkur ákveðnum nýjum upplýsingum.

Ég vil líka nefna að ég á von á því að koma hér inn með frumvarp um nýja mannréttindastofnun næsta haust og gert er ráð fyrir fjármunum í það verkefni í fjármálaáætluninni, í það svigrúm sem áætlað er forsætisráðuneytinu. Við höfum þegar hafið vinnu við landsáætlun um mannréttindi, hófum hana núna í mars, og við erum að stefna að því að ljúka því verkefni fyrir árslok 2023. Ég vonast auðvitað til þess að Alþingi muni samþykkja þetta frumvarp um nýja mannréttindastofnun þannig að við munum eignast öfluga sjálfstæða (Forseti hringir.) stofnun á þessu sviði sem getur náð fram með hlutverki sínu (Forseti hringir.) enn meiri framförum í þessum málaflokki.