Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[14:47]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Það er sannarlega ekki þannig að hvert einasta smáatriði í öllum verkefnum stjórnvalda og þings komi fram í fjármálaáætlun, sem sannarlega er rammi utan um það sem gert er. Hins vegar koma hérna fram þau markmið sem stefnt er að með þessari stefnu um úthlutun fjármuna úr ríkissjóði. Það er auðvitað þannig, og við vitum það öll, hæstv. ráðherra veit það jafn vel og ég, að það þarf peninga til að koma hlutum í verk. Ég hef lýst yfir miklum áhyggjum af þeirri löggjöf sem hefur verið sett. Ég lýsti þessum áhyggjum í allsherjar- og menntamálanefnd þegar við vorum að bæta við þessum mismununarbreytum inn í lögin, að þetta sé í rauninni eingöngu til málamynda þegar ekki er gert ráð fyrir því að fara í virkar aðgerðir til þess t.d., líkt og hæstv. ráðherra nefnir sjálf, að vekja athygli fólks á þessari löggjöf. Fólk hefur ekki hugmynd um það einu sinni að það geti kært þegar því er mismunað á grundvelli kynþáttar og þjóðernisuppruna. Því miður hefur mér heyrst, eftir óformlegum upplýsingum um ástæður þess að ekki hafi borist neinar kærur til kærunefndar jafnréttismála, að það sé vegna þess að þeir einstaklingar sem brotið er á, sérstaklega á grundvelli einmitt kynþáttar og þjóðernisuppruna, hafi ekki þau tæki sem íslensk stjórnsýsla gerir ráð fyrir að þú hafir til að leita réttar þíns, tala ekki tungumálið, kunna ekki á stjórnsýslukerfi að skandinavískri fyrirmynd, og að það sé beinlínis hindrun. Þetta er eitthvað sem þarf að taka á aktíft, ekki bara með því að setja löggjöf og bæta við mismununarbreytum og krossleggja fingur og vonast til þess að allt gangi vel.

Ég fagna því að það sé kominn einhver skriður á að setja á fót sjálfstæða mannréttindastofnun þó að ég skilji reyndar ekki hvers vegna það hefur ekki fyrir löngu verið gert. En mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra aftur, eða kannski bara orða spurninguna öðruvísi: (Forseti hringir.) Hver telur hún að ástæðan sé fyrir því að það koma engin mál til kærunefndar jafnréttismála á grundvelli kynþáttar og þjóðernisuppruna? (Forseti hringir.) Telur hæstv. ráðherra að þetta sé ekki vandamál á Íslandi eða er eitthvað í kerfinu okkar sem gerir það að verkum að fólk getur ekki leitað réttar síns?