Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[14:57]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir skýr og greinargóð svör. Það má sömuleiðis horfa til þess að þetta gæti verið samstarfsverkefni þriggja ráðuneyta, þ.e. forsætisráðuneytis, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis og matvælaráðuneytis, þar sem allir koma til með að leggja hönd á plóg. Við þekkjum svo sem mörg verkefni sem þegar eru í gangi, t.d. eins og Bændur græða landið, Landbótasjóð og síðan öll þau fjölmörgu verkefni sem snúa að skógræktinni. Ég hjó eftir því að hæstv. forsætisráðherra talaði um endurheimt vistkerfa, sem er mjög jákvætt, en ég held að það sé líka mikilvægt í þessu samhengi að sums staðar getur það verið þannig að sumt af þessu landi sé virkilega heppilegt til skógræktar t.d. Þar þurfum við að horfa til þess að við séum þá að nýta landið á þann hátt að planta í þetta plöntum sem ekki endilega eru íslenskar að uppruna, eins og lerki og fleiri jurtir, en ég geri mér grein fyrir því að það eru svolítið skiptar skoðanir um það. En við vitum alveg að það eru sum svæði betur fólgin til að rækta skóg á og víða er það orðið þannig hér á landi að við erum að horfa til þess að geta farið að nýta þær skógarafurðir sem var plantað fyrir 30–40 árum síðan. Þar eru líka mikil auðæfi og miklar auðlindir sem eru vannýttar. Land er náttúrlega sú dýrmætasta auðlind sem þjóðin á og því fagna ég því að forsætisráðherra sé að horfa til þess (Forseti hringir.) að nýta landið á skynsaman og notadrjúgan hátt.