Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[15:05]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Auðvitað snýst fjármálaáætlun ekki eingöngu um efnahagslegan stöðugleika eða eingöngu um ríkisfjármálin, ég held að þetta viti allir sem eru að taka þátt í þessari umræðu hér inni. Það er stórkostlega einfölduð mynd að leggja málið upp með þeim hætti að þegar allir umsagnaraðilar segja að þessar aðgerðir sem hér eru lagðar til munu ekki hjálpa með verðbólguna þá mæti forsætisráðherra til leiks og stilli upp heilbrigðiskerfinu; viljið þið heilbrigðisþjónustu og viljið þið innviði? Auðvelda leiðin hjá stjórnvöldum í verðbólguástandi eins og þessu er að kippa út einstaka fjárfestingu, eins og núna er verið að gera. Það sem er pólitískt erfitt er að fara í hagræðingu í rekstrinum sjálfum. Það fer að bíta ráðherrana sjálfa, að skoða hvað þau geta sjálf gert. Þannig að ég hafna því og tek ekki þátt í samtali um það að við sem erum að biðja um að almenningur í landinu verði varinn fyrir verðbólgu eigum að sitja undir því að við viljum ekki heilbrigðisþjónustu fyrir fólkið í landinu. Það er ekki undir í þessum sal, að ætla að standa með heilbrigðisþjónustunni. Ég bara leyfi mér að fullyrða að þingið standi allt sameinað um það. Það breytir ekki því að þessi ríkisstjórn rak ríkissjóð með halla fyrir heimsfaraldur, á meðan heimsfaraldri stóð, eftir heimsfaraldur og í mörg mörg ár til viðbótar. Það er nú öll ráðdeildin. Einhver einföld mynd um það að við sem erum að benda á það — og við erum ekki ein um það, fjármálaráð, lærðir hagfræðingar, Samtök atvinnurekenda, verkalýðsfélögin, sirkabát allir nema forsætisráðherra og fjármálaráðherra getað séð að hér er ekki nóg að gert. Millistéttin mun taka reikninginn fyrir það. Ég ítreka því spurningar mínar: Sér forsætisráðherra fyrir sér einhverjar frekari aðgerðir gegn verðbólgu fyrir fólkið í landinu, ekki bara fyrir einhvern stóran fjarlægan efnahagsreikning sem engan varðar? Það er hagsmunamál fyrir fólkið í landinu (Forseti hringir.) að til frekari aðgerða sé gripið, annars er verið að segja að öll gagnrýnin sé á misskilningi byggð.