Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[15:15]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Þessi ríkisstjórn, ein ríkisstjórn, er búin að auka útgjöld ríkisins í krónum talið um hátt í 70% og verðleiðrétt um þriðjung, 33%. Engri annarri ríkisstjórn, eftir því sem ég kemst næst, hefur tekist að auka útgjöld svona mikið. Og hvað fá landsmenn fyrir? Er heilbrigðisþjónustan betri? Hafa biðlistarnir styst? Hvað fá menn fyrir þessa gífurlegu útgjaldaaukningu? Það er ekki gott að henda reiður á því. Svo mætir hæstv. forsætisráðherra og afsakar sig með því að einhverjir aðrir myndu gjarnan vilja að útgjöldin ykjust enn þá meira en metútgjöld þessarar ríkisstjórnar.

Varðandi forsætisráðuneytið voru nú ýmis verkefni færð í það ráðuneyti t.d. 2009 og 2013 án þess að það fæli í sér svona gífurlega kostnaðaraukningu fyrir það ráðuneyti enda hefur hæstv. ráðherra, eins og ráðherrarnir almennt, fjölgað mjög fólki í kringum sig til að vinna að pólitískum hugðarefnum sínum. En er von á einhvers konar sparnaðaraðgerðum, til að mynda varðandi áform um að byggja nýtt Stjórnarráðshús fyrir aftan hið sögufræga gamla hús? Gæti verið ráð að staldra nú við og nota tækifærið til að hanna hús sem fellur betur að þessum sögulega reit? Það nefnilega skiptir máli í hvað peningarnir fara.

Hæstv. ráðherra nefndi hér í inngangserindi sínu áform um að leggja gistináttagjald á skemmtiferðaskip, sem getur verið alveg eðlilegt ef menn ætla að viðhafa gistináttagjald, að gæta þar jafnræðis og leggja líka gistináttagjald á skemmtiferðaskip. En bara fyrir forvitnissakir: Verður gistináttagjaldið lagt á kafbáta?