Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[15:19]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Fjármálaáætlun er stefnumarkandi áætlun um hvernig ráðuneytin hyggjast verja fjárheimildum málefnasviða með sem árangursríkustum hætti fyrir samfélagið. Dómsmálaráðuneytið ber ábyrgð á málefnasviði um dómstóla, almanna- og réttaröryggi og réttindi einstaklinga. Þau tvö fyrrnefndu heyra að litlum hluta undir forsætisráðuneytið.

Um dómstóla. Heildarútgjöld málefnasviðsins dómstólar haldast óbreytt út áætlunartímabilið. Á vormánuðum 2022 var tekin ákvörðun um að ráðast skyldi í sameiningu átta héraðsdómstóla landsins og byggðist það m.a. á ábendingum Ríkisendurskoðunar. Skipaður var starfshópur um sameininguna 23. mars 2022 sem skilaði af sér skýrslu til ráðherra í desember sama ár. Frumvarp um breytingu á dómstólalögum vegna sameiningar héraðsdómstóla var lagt fram á Alþingi 23. mars sl. Nokkuð góð sátt virðist vera um meginmarkmið sameiningarinnar sem er að styrkja starfsstöðvar á landsbyggðinni, ná fram einfaldari og skilvirkari stjórnsýslu fyrir dómstóla, að fjárframlög og mannauður dómstóla nýtist betur og að aukið hagræði náist í meðferð dómsmála, borgurunum til hagsbóta. Fyrir Alþingi liggur frumvarp um breytingu á lögum um dómstóla, um fjölgun á landsréttardómurum um einn, úr 15 í 16. Fjölgunin miðar að því að unnt verði að halda ásættanlegum málshraða við réttinn.

Í kafla um almanna- og réttaröryggi segir að rekstrarframlög málefnasviðsins almanna- og réttaröryggi haldist nokkuð óbreytt út áætlunartímabilið. Helstu breytingar frá gildandi fjármálaáætlun snúa að varanlegri niðurfellingu aðhaldskröfu sem gerð hefur verið til fullnustukerfisins en það sama á við um löggæsluna árið 2024 eða 2025. Auknum framlögum er varið í þrjú verkefni. Í fyrsta lagi 410 milljónir til greiðslu sanngirnisbóta, í öðru lagi 160 millj. kr. framlag á árinu 2024 til Slysavarnafélagsins Landsbjargar til áframhaldandi kaupa og fjármögnunar björgunarskipa, í þriðja lagi 43 milljónir í varanlegt framlag 2026 til að mæta auknum rekstrarkostnaði fangelsisins á Sogni. Þar er gert ráð fyrir 340 millj. kr. hækkun fjárfestingarframlags til að fjölga þar rýmum um 15.

Um löggæslu og ákæruvald segir að nýlega hafi verið kynntar fyrir almenningi tillögur til stóreflingar lykilþátta íslenskra löggæslu. Byggja þær á undirbúnings- og greiningarvinnu sem staðið hefur yfir í meira en 12 mánuði. Ráðist verður í umfangsmikla styrkingu almennrar löggæslu, eflingu menntunar lögreglumanna, endurnýjun aðgerðaáætlunar gegn kynferðisafbrotum og stóreflingu aðgerða gegn skipulagðri brotastarfsemi. Þær breytingar sem eru í farvatninu og á síðasta ári hafa kallað á allt að 80 stöðugildi. Þetta er upphafið að þörfu grettistaki í löggæslumálum en fram undan eru krefjandi verkefni á því sviði.

Um Landhelgisgæsluna. Veikleikar eru þar til staðar í fjármögnun. Það hefur verið lagt mat á kostnað við að ná ásættanlegu öryggis- og þjónustustigi í samræmi við áherslur Ríkisendurskoðunar sem komu fram í stjórnsýsluúttekt í febrúar 2022. Það kallar á aukin framlög, t.d. til að auka verulega viðveru flugvélar TF-Sifjar hér á landi, auk framlaga til að viðhalda afkastagetu varðskipa og loftfara. Það er þó ekki tímabært að ráðast í þessar aðgerðir fyrr en niðurstöður starfshóps, sem skipaður var á síðasta ári til að rýna rekstur stofnunarinnar og starfsemi hennar, liggur fyrir. Vonast er eftir niðurstöðum hópsins núna bara á næstu vikum. Þá verður tekin ákveðin framtíðarsýn.

Starfsemi fangelsanna hefur verið styrkt og eins og ég kom inn á áðan er fyrirhugað að fjölga rýmum á Sogni, í opnu fangelsi, úr 21 í 35. Framtíðarsýnin er síðan svipuð stækkun á Kvíabryggju.

Liður um réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýslu hækkar. Hann hækkar um 4,4 milljarða árið 2024. Það skýrist að mestu af tímabundnu 5,6 millj. kr. viðbótarframlagi til að mæta fjölgun umsækjenda um alþjóðlega vernd, auk framlags til fjölgunar starfsmanna á verndarsviði Útlendingastofnunar og falla þau útgjöld niður árið 2026.

Um sýslumenn. Það hefur mikil þróun átt sér stað á þessum mikilvægu þjónustustörfum fyrir almenning. Það er tilbúið frumvarp um sameiningu sýslumannsembættanna úr níu í eitt embætti. Sameinuð embætti yrðu með starfsemi dreifða um allt land og betur til þess fallin að ryðja brautina fyrir ný verkefni og stuðla að hraðari framkvæmd á stafrænni þróun. Það munu liggja mikil tækifæri í flutningi starfa út á land í tengslum við það.

Stjórnsýsla ráðuneytisins. Þar eru megináherslur á mál sem styrkja rafræna innviði og markmiðið er að bæta þjónustu við borgara og nýtingu ríkisfjármuna.

Um útlendingamál. Það voru lögfest ný lög 15. mars. Lagabreytingin gefur tilefni til rýni á framkvæmd núverandi kerfis með það að markmiði að einfalda málsmeðferð, skýra einstök ákvæði laganna og bregðast við þróun útlendingamála á alþjóðavísu. Í því sambandi er nauðsynlegt að horfa til reynslu nágrannaþjóða okkar á málaflokkum og samræma löggjöf okkar í auknum mæli við það sem gerist og gengur í Evrópu.