Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[15:34]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargerð hans en það er ýmislegt í þessu sem vekur upp spurningar. Það sem sérstaklega kemur upp í hugann er þetta ákveðna metnaðarleysi sem kemur fram. Það er t.d. það sem segir á bls. 2018, að málsmeðferðartími sakamála sé stöðug áskorun. Það er eins og það eigi ekki að taka á þessu. Það er mjög alvarlegt mál að fólk sé í rannsókn jafnvel árum saman og að mál séu ekki kláruð. Það er algerlega óásættanlegt. Mér finnst þetta orðalag sem kemur fram í áætluninni — það lítur út fyrir að ráðuneytið telji þetta að einhverju leyti léttvægt vandamál að leysa úr, að þetta sé ekki á forgangslista. Mér finnst það vera mjög mikilvægt mál að réttarkerfið vinni skipulega og vel og hratt í þeim málum sem eru uppi á borðum.

Síðan er það málsmeðferðartími dómstólanna. Hann er 394 dagar og metnaðurinn er ekki meiri en svo að það á að komast niður í um 300 daga 2028. Það er auðvitað þannig að frestur á réttlæti er í sjálfu sér óréttlæti. Mér finnst það eitt af þeim meginefnum sem hæstv. dómsmálaráðherra ætti að beita sér í að ná hraðar í gegn. Þess vegna vil ég nota tækifærið hér í þessari örstuttu ræðu og fá sjónarmið hæstv. ráðherra hvað þessi tvö málefni varðar.